Stærsti heilbrigðisvandinn

hospital-520x248Meðvirkni er orð sem löngum hefur verið á milli tannanna á fólki sem neikvætt háttalag aðstandanda alkóhólista.  Orðið er gildishlaðið og úrelt en ekki hefur verið fundið annað orð sem er nægjanlega lýsandi um þennan algenga, lúmska og mjög svo skaðlega sjúkleika.

Meðvirkni er “normið” í íslensku samfélagi í dag.  Þeir sem ekki eru meðvirkir þykja jafnvel stífir, erfiðir og sjálfsumglaðir.   En í flestum tilfellum er sá dómur felldur af meðvirkum einstaklingi, því ómeðvirkni skapar óöryggi hjá hinum meðvirka.

Heyrst hafa ágiskanir um að 98% Íslendinga eigi við meðvirkni að stríða og hef ég grun um að þessi háa tala sé ekki fjarri raunveruleikanum.   En eru þetta tóm útblásin orð eða eru einhver haldbær rök fyrir þessu?

Hvað er meðvirkni?

Meðvirkni verður að mínu mati best lýst sem brotinni sjálfsmynd einstaklings, sem gerir það að verkum að viðkomandi býr við innri sársauka, vanmáttarkennd.  Þegar við upplifum vanmáttinn og sársaukann innra með okkur, þá fer heilinn strax að leita að lausn, hann reynir að leysa vanda sem hann hefur ekki þekkingu til.  Það er eitt sem við öll eigum sameiginlegt, og það er að við getum illa unað við sársauka.

Ef erfiðleikar eru á heimili s.s. reglulegt rifrildi foreldra og lítið barn fylgist með þá er nokkuð ljóst að því mun líða illa.  Ef um reglulegt háttalag er að ræða þá fer barnið að leita eftir sársaukaminnstu leiðinni í þessu óþægilega umhverfi.  Barnið tekur annað hvort upp á því að blanda sér í rifrildin í von um að þau sjái að sér,  bregst við með öskri og gráti, til að stoppa foreldrana eða fer afsíðis og einangrar sig frá vandanum.    Hvert sem val barnsins er þá er það að aðlaga sig að vanvirkum aðstæðum, það verður meðvirkt.   Þegar barn þarf að breyta sínu upprunalega sjálfi, til að laga sig að vanvirkum aðstæðum þá verður það meðvirkt.  Þannig að vanvirkir (disfunctional)  foreldrar ala upp vanvirk börn, börn með skert sjálfsmat.

Meðvirkni verður til við mjög margvíslegar aðstæður, nær alltaf í æsku.  Ef foreldrar okkar hafa verið óhamingjusamir, óþroskaðir, skapstórir, stjórnsamir, þunglyndir, óþolinmóðir, búið við erfiðleika á heimili vegna veikinda einhvers nákomins, lent í skilnaði, missi og svo síðast en ekki síst ekki haft þekkinguna hvernig á að ýta undir eðlilegt verðmætamat barns.  Allt þetta og ýmislegt fleira gerir það að verkum að sjálfstraust og sjálfsmat barns verður skert.

En af hverju er meðvirkni “normið” í íslensku samfélagi?

Meðvirkni verður til þegar einstaklingur er settur í þá stöðu að hann hefur ekki frelsi til að vera hann sjálfur.  Hann verður að aðlaga sig að ástandinu, breyta háttalagi sínu, framkomu, eða viðbrögðum til að sér líði betur.    Skoðum síðustu kynslóðir hér á landi, foreldra okkar eða ömmur og afa.   Það er ekki ýkja langt síðan samfélagið var algerlega mótað af körlum.  Þeir áttu sér hlutverk.  Þeirra var að vinna, mennta sig og sjá um að bera björg í bú.  Þeir voru yfir konuna hafnir, þeir máttu ekki sýna tilfinningar.  Vinnan var dyggð og sá sem ekki stóð til vinnu var litinn hornauga.  Á einföldu máli, karlinn var þvingaður inn í hlutverk hvort sem það hentaði honum eða ekki, það að mega ekki sýna tilfinningar hefur verið honum mjög skaðlegt, því eðlilegt tilfinningarflæði er lykillinn að heilbrigðu og innihaldsríku lífi.  Leiðir karlsins til að fá útrás fyrir bældum tilfinningum eru flestum kunnar, drykkja, ofbeldi og endalaus vinna.

Konan átti ekki sjö dagana sæla.  Hún var þvinguð til þess að vera heima, sjá um börnin, heimilið, matinn.  Henni var ekki ætlað að mennta sig eða að vinna, nema við ákveðin störf.  Þessi þvingun, kvenfyrirlitning, bæling og niðurbrot hefur sannarlega breytt hverri konu í meðvirkan einstakling, þ.e.a.s. hún gat ekki verið hún sjálf, hún varð að vera það sem samfélagið ætlaðist til af henni.

Almennt séð hafa karlar og konur búið við mjög þvingandi og skaðlegar aðstæður, hér á landi, og því þurft að setja sig í hlutverk, þóknast öðrum, hafna sínum tilfinningum, þörfum og þrám.  Þessu fylgir mikið niðurbrot, sjálfsmatið verður mjög takmarkað þegar við getum ekki verið við sjálf og vanlíðanin sem þessu fylgir er mikil.  Þetta samfélagsmunstur forfeðra okkar er enn mjög ríkjandi í samfélagi samtímans.  Ekki bara út frá þeirri staðreynd að vanvirkni foreldra  okkar í gegnum uppeldið heldur er óeðlileghlutverka-skiptingin enn við líði í hjónaböndum, þar sem annar einstaklingurinn fyllir upp í getuleysi maka sins.  Slík hlutverkaskipting getur reynst parinu ljár í þúfu þegar líður á sambandið.

Meðvirkni, undirrót allra fíkna?

Barn sem er þvingað í að vera annað en það er í eðli sínu elur með sér mikinn sársauka, og misjafnt er hvernig barnið kemur honum í farveg.  Þegar barnið fer inn á unglingsárin og fer að leita meir út fyrir öryggi heimilisins, þá aukast kröfurnar til muna frá samfélaginu og vinum.  Kynþroskaskeiðið hellist yfir með öllum sínum fylgifiskum og þá fer verulega að reyna á sjálfsmat einstaklingsins.  Ef sjálfsmatið er lágt eða ekkert, þá er sársaukinn mjög mikill og viðkomandi verður að finna sér flóttaleið til að lifa af.  Flóttaleiðir samtímans eru æði margar og er alltaf að fjölga.  Algengasta flóttaleið fullorðinna er að öllum líkindum vinnufíkn en aðrar fíknir s.s. áfengis og vímuefnafíkn, sjónvarpsfíkn, tölvufíkn, tölvuleikjafíkn, matarfíknir, innkaupa- og kynlífsfíkn, ástarfíkn, sjálfsskaði og ekki má gleyma fíkninni í að blanda sér í líf annarra (meðvirkni).   Allar þessar fíknir eru leiðir einstaklingsins til að flýja sársaukann sinn, þetta er sjálfsbjargarviðleitni, sem til lengri tíma verður mjög skaðleg.

Hvað er til ráða?

Vandamálið er gífurlega stórt og umfjöllunin og úrræðin ekki í neinu samræmi við það.   Ef meðvirkni vandinn er grunnur allra fíkna, ef meðvirkni  hefur bein áhrif á 98% Íslendinga í einhverri mynd, á samskipti þeirra og lífshamingju, þá er hér um að ræða allsherjar afneitun og eða þekkingarleysi samfélagsins.  Bandaríkjamenn eru eins og svo oft áður komnir langt á undan hvað varðar þekkingu á skaðsemi meðvirkni, og vil ég þar benda á Piu Mellody og John Bradshaw því til stuðnings.    Engin meðferðarstöð er til í dag fyrir meðvirka hér á landi, en hins vegar má benda á 12. sporasamtök eins og Al-anon og Coda (Codipendents anonymous) og einnig hægt að finna námskeið og upplýsingar á www.lausnin.is.

Vandinn er mikill en augu okkar eru lokuð fyrir honum, því lausnin snýst um að takast á við það sem flestum reynist erfiðast að kljást við í lífinu, það er að vinna í sjálfum sér.  Eins og frasinn segir, “það er auðveldara að sigra heiminn en sjálfan sig”.   Ef þér líður illa, ef þú upplifir ekki hamingju, ef þú ert ekki að njóta lífsins, ef þú átt í erfiðleikum með samskipti, eða átt við tilfinningarerfiðleika, svefnleysi , þunglyndi, kvíða eða félagsfælni, þá gætir þú átt við meðvirkni að stríða.  Eitt er ljóst, ef við þekkjum einhvern að ofangreindum þáttum þá mun ekkert breytast í því nema við breytum einhverju.

 

Grein þessi hefur áður verði birt á pressan.is

Kjartan Pálmason
Ráðgjafi/guðfræðingur
www.lausnin.is