Skömm foreldranna

hallofshameÖll börn hafa grunnþörf fyrir ást og andlega næringu frá foreldrum sínum. Þessi þörf er hluti af grunn- eðli barnsins sem hefur þörf að vera samþykkt og verndað eins mikið og það þarfnast mjólkur og hlýju. Pia Mellody, frumkvöðull í meðvirknifræðum og höfundur bókarinnar „Meðvirkni“, heldur því fram að þegar foreldrar ná ekki að sinna þessu mikilvæga umönnunarhlutverki sínu, þá upplifir barnið vantraust til foreldra sinna og fari að þróa með sér skammartilfinningu.

Ástæða þess að flestir foreldrar eru valdir að skammartilfinningu barna sinna er alls ekki vegna þess að þau séu slæm heldur séu þau að kljást við eigin vanþroska og þau ráða illa við það tilfinningalega áreiti sem fylgir því að ala upp lítið barn. Þetta háttarlag er alls ekki óvanalegt vandamál hjá foreldrum, segir Pia. Flest okkar vorum við sjálf alin upp í ófullnægjandi, þroskaskerðandi aðstæðum í æsku og því ekkert skrýtið að við berum það til barnanna okkar.

Það þroskaleysi sem foreldrar upplifa í tengslum við uppeldi barna sinna hefur tilhneigingu til að birtast í formi gremju, reiði, vanrækslu, stjórnsemi, þöggun, fýlu, markaleysi, og ósveigjanleika svo eitthvað sé nefnt. Slík hegðun gefur foreldrunum losun frá þeirri streitu sem fylgir því að ala upp barn. Á móti þá upplifir barnið ótta og skerðingu á eigin verðmæti og sjálfsvirðingu. Barnið upplifir að það sé eitthvað að því sjálfu og eins og Pia Mellody kallar það, „þróar með sér ofnæmi fyrir eigin mennsku“. Þær afleiðingar sem þetta háttarlag hefur á börnin kallar Pia „carried shame“ sem þýða má borin skömm.

Pia segir það mikilvægt að aðgreina sína eigin skömm frá borinni skömm. Hún lítur svo á að tilfinningin „skömm“ sé okkur mjög mikilvæg í daglegu lífi en borin skömm hins vegar mikið vandamál. Hlutverk heilbrigðrar skammar í lífi okkar, er að hún gerir okkur meðvituð um eigin breyskleika, en borin skömm hefur þau sorglegu áhrif á okkur að við upplifum hversu verðlítil við erum, að við séum minni en aðrir!

Þegar við finnum fyrir okkar eigin skömm, þá upplifum við að einhver hefur séð okkur eins og við raunverulega erum, mennsk og ófullkomin, við vitum að við erum ekki betri, æðri eða meiri en aðrir. Einnig gerir hún okkur kleyft að vera raunsæ varðandi þau áhrif sem okkar hegðun og háttarlag hefur á annað fólk.
Þegar foreldrar sjálfir eiga í erfiðleikum með sjálfsvirðingu og skömm, eiga í erfiðleikum með takast á við streituþætti uppeldis, samskipta, heimilisins, fjármála o.s.frv, þá er viðbúið að barnið drekki í sig það sem fyrir því er haft, ekki síst ef foreldri er ekki meðvitað um eigin vanda, og þar með lærir barnið ekki að hegðun foreldranna sé óeðlileg. Það sem barnið upplifir er sársauki og að ÞAÐ sé ekki nógu gott eins og það er, og upplifir skömm foreldranna sem sína eigin.

Barnið fer því að skammast sín að vera mistækt, fyrir að tjá sig, fyrir hvernig það lítur út, fyrir að vera ekki eins gott og, fyrir að standa sig ekki eins vel og aðrir, fyrir að tjá sig, fyrir að gráta, fyrir að eiga ekki það sem aðrir krakkar eiga o.s.frv. Á fullorðinsárum mætti flokka birtingarmyndir skammar gróft á tvo vegu sem Pia kallar passive og agressive. Passive birtingarmynd er eins og feimni, óframfærni, óöryggi, ótti við álit annarra, einangrun, taugaveiklun, frestunaráráttu, þunglyndi og kvíða. Aggressive birtist hún í ofurhjálpsemi, þóknast öðrum, að þurfa stöðugt að sanna sig, fullkomnunaráráttu, ráðríki, yfirgangi, niðurtali, baktali, sjálfsupphefð, hroka og síðast ekki síst stjórnsemi.

Kjartan 150x112

Kjartan Pálmason
Guðfræðingur og ráðgjafi
Lausnin, fjölskyldumiðstöð