Nánd

Nánd er öllum einstaklingum eðlislæg og allir menn, karlar og konur hafa innbyggða þörf fyrir nánd. Það að vera í nánd og þyggja nánd einhvers annars lifandi einstaklings skapar öryggi og innri ró. Í nándinni fyllist á allar þær tilfinningastöðvar sem einstaklingurinn er með hið innra og hann verður tilbúnari til þess að takast á við allt sem mætir honum í daglegu lífi.

Afhverju nánd

Þegar barn fæðist þarf það nánd til þess að það nái að þroskast og dafna á eðlilegan hátt. Það þarf að skapa tilfinningatengsl við umönnunaraðila með því að sinna því líkamlega, elska það og örva skilningarvit þess. Barnið byggir upp traust í nándinni og skilningarvit þess örvast og þroskast og barnið verður tilbúnara til þess að takast á við heiminn í kringum það. Barnið gengur fyrstu skrefin út í heiminn í öryggi ummönnunaraðila vitandi að viðkomandi muni vera til takst og veita því skjól ef það þarf á því að halda. Fyrstu ár barnsins eru MJÖG mikilvæg fyrir framtíð þess. Það eru mörg börn sem hafa ekki alist upp við góð tilfinningatengsl á sínum fyrstu árum. Margt hefur komið í veg fyrir að örugg tilfinningatengsl hafi myndast. Barnið fer því út í heiminn og er ekki tilbúið að takast á við allt sem í honum býr. Margar rannsóknir sem gerðar hafa verið á þróun fíknar sýna fram á að tengslaröskun í æsku, það er að barnið nær ekki að mynda heilbrigð tengsl við ummönnunaraðila, er frumforsenda fíknar. Það myndast tómarúm (nokkurskonar hol) í sál barnsins og barnið upplifir lífeðlisfræðilega þörf á að fylla þetta tómarúm.

Hvað þarf til að njóta nándar

Til að njóta nándar er mikilvægt að friður sé hið innra hjá einstaklingnum, friður sem myndast þegar einstaklingurinn hefur ákveðið að læra að þekkja sjálfan sig, hvað hann vill og hvað ekki. Hann finnur út hver mörk hans eru, geta, annmarkar, langanir og þrár. Margir gætu þurft leiðsögn fagaðila til að ná þessu markmiði. Ef einstaklingurinn hefur komist í sátt við sjálfan sig og elskar sig sjálfan getur hann að öllu leiti betur meðtekið og fundið sig öruggan í nánd annars einstaklings. Margir rugla saman því að vera í öruggri höfn nándar og að stunda kynlíf. Það er sannarlega mikil nánd í góðu og heilbrigðu kynlífi en kynlíf án nándar er líklegt til að meiða annan eða báða einstkalingana. Sá sem hefur sett sjálfum sér mörk og lært að lifa í öryggi nándarinnar er ólíklegur til að veita kynlíf þegar viðkomandi þráir ást og nánd.

Birting nándar

Nánd birtist á milli einstaklinga. Birtist þegar einstaklingar treysta hvor öðrum og upplifa sig örugga með hvor öðrum. Traust byggist upp á samveru og samskiptum þar sem einstaklingarnir læra inn á hvorn annan og gefa af sér til hvors annars. Í samskiptunum þarf að vera heiðarleiki og vilji til þess að opna hjarta sitt og gefa af sér, þar með talið að leggja niður allar varnir. Með endurteknum samverum þar sem rætt er saman og gefið af sér byggist upp traust og vilji til nándar. Það er mikilvægt að nándin sé gefin án þess að það sé ætlast til að fá eitthvað í staðinn, nánd þarf að vera gefin án skilyrða.

Afleiðing nándar

Nándin kemur ró á líkama okkar, við verðum móttækilegri til að finna og upplifa það sem er talað til okkar en mikilvægt er að tala ást, uppörvun og hvatningu í nándinni.  Við snertingu og blíðan orðróm byggist upp innri vera okkar og við söfnum sálrænum kröftum til þess að takast á við daglegt líf okkar og því sem mætir okkur. Þetta hefur einnig áhrif líkamlega stöðu okkar þar sem líkami okkar nær að slaka á og finna til vellíðunnar, sem svo aftur leiðir af sér losun á neikvæðri orku sem hefur bindandi áhrif á vöðva okkar, sem skapa aftur verki í liðum og líkama okkar.

Nánd í parsamböndum

Að vera í nærandi og gefandi parsambandi krefst gagnkvæmar nándar og slíkt byggist upp á löngum tíma. Mikilvægt er að vinna daglega að þeim markmiðum að nándin fái að blómstra. Það er mikilvægt að skapa öruggan stað fyrir nándina þar sem er algjört næði er til staðar og á tímasetningu þar sem alla jafna er ró. Þessi tími er mikilvægur fyrir parið þar sem það ætlar að vera heiðarlegt og gefa af sínum innra manni og opna hjartað upp á gátt vitandi að það er hægt að særa hjartað. Án þess að standa algerlega varnarlaus (e. Vulnerability) er ógerlegt að skapa nærandi og traust parsamabnd. Þrátt fyrir þá áhættu sem varnarleysið myndar, skapar markviss vinna með nándina dýpra og heilsteyptara samband parsins sem hefur áhrif á alla þeirra samvinnu hvað varðar börn, vini, ættingja og heimili.

Það sem þarf að vera til staðar til að byrja þetta ferðalag er vilji til að dýpka traust á makanum. Hvort um sig þarf að finna að það er meðtekið af maka sínum og þau eru að fara í þetta ferðalag saman af gagnkvæmum vilja en ekki bara fyrir hinn aðilann.  Í vinnu með nándina verða atriði sem koma fram, sem erfitt er að segja frá vegna t.d. skammar, ótta við höfnum, vilja til að halda ákveðinni ímynd og svo framveigis, er mikilvægt að makinn finni að hann er meðtekinn alveg eins og hann er. Að honum bjóðist útrétt hönd sem táknræn mynd á að makinn er ekki einn í vanmætti og vanda sínum. Makanum er sagt með orðum og hann finnur að til staðar er teymi tveggja einstaklinga sem vinna samstíga að því að efla hvort annað.

Í nándinni þarf makinn að leggja af allar varnir og mæta maka sínum án varna, í einlægni. Þetta getur verið mjög erfitt en skilar sér margfalt til baka í dýpra sambandi parsins og meiri fullnægjandi nærveru. Þetta mun einnig skila sér á jákvæðan hátt út í kynlíf parsins þar sem það mun verða dýpra og nánara en parið mun nú á ítarlegri hátt geta rætt saman um langanir sínar og þrár í kynlífi. Nýlegar rannsóknir sína að 90% þeirra sem leita til parþerapista eiga í erfiðleikum í kynlífi sínu þó að ástæða þess að farið er í þerapíu sé ekki kynlífsvandi. Í meðferðinni kemur hins vegar í ljós að vandinn sem parið glímir við smitast yfir í vanda í kynlífinu. Það er mín reynsla að þau pör sem ná að lifa góðu kynlífi eiga það sameiginlegt að þau þora að tala um kynlíf sitt. Þegar búið er að laga vandann og parið nær að skapa nánd eru meiri líkur en minni á að kynlífið fari aftur í þann eðlilega takt sem parið vill að það sé í. Einstaklingur lagar hins vegar ekki nándarvandamál með kynlífi. Umræðan um tilfinningar, væntingar og vonir (sem sagt uppbygging nándar) kemur fyrst og síðan kemur gott og nærandi kynlíf.

Katrín Þorsteinsdóttir
fjölskyldufræðingur og klínískur félagsráðgjafi