Sonur minn var í miklu rugli

Á þeim tíma sem ég fór í Lausnina var sonur minn í miklu rugli. Ég svaf ekki á nóttunni og var með þráhyggju fyrir símanum, hringjandi í strákinn eða vini hans, eilíflega að leita að honum. Þegar ég náði ekki í hann var ég gagntekin af ótta, þegar ég náði í hann reyndi ég að stjórna honum með það fyrir augum að beina honum í rétta átt. Hann hlustaði aldrei, ég fylltist vanmætti en hélt samt áfram buguð af áhyggjum að reyna að bjarga honum. Á þessu tímabili var mér bent á Lausnina af eiginmanni konu sem hafði einnig sótt hjálp þangað með góðum árangri.

Ég lærði að sleppa tökunum á því sem ég hafði enga stjórn á og fékk aðstoð við þær ákvarðanir sem ég tók í sambandi við vandamálin sem ég var að kljást við. Það var gott að fá ráðgjöf og enn betra að hitta aðra í hóp sem höfðu upplifað eitthvað svipað og jafnvel yfirstigið vandamálið. Það gaf mér von.

Ég varð fljótt öruggari með mig og stóð betur með mér þegar ég tók á málum. Í hverri viku hitti ég hópinn minn og ræddi málin og fékk leiðsögn eða þarfar spurningar til að velta vöngum yfir. Ég fór smátt og smátt að einblína á mig og líf mitt. Ég sinnti yngri börnum meira og betur eftir að ég sleppti tökunum og fór að upplifa áhyggjulausa daga.

Eftir nokkrar vikur hætti sjálfshjálpin að snúast um son minn og fór að snúast um mig. Ég sá að ég hafði alltaf barist áfram meira af vilja en mætti. Mér hafði liðið eins og ég væri ein með vandamál mín, hvort sem ég hafði mann við hlið mér eða ekki. Ég hafði ávallt haft mikla þörf fyrir að skilgreina allt og tala endalaust um það sem plagaði mig við mína nánustu, án mikils árangurs. Full vanmáttar hafði mér samt tekist að gera ótrúlegustu hluti. Ég hélt að það væri viljastyrknum að þakka og að mér hefði ekki tekist það nema með herkjum. Mér fannst líf mitt erfiðara en annarra. Ég ímyndaði mér að öðrum liði betur en mér og þeir leystu sín vandamál mun auðveldar. Í hópnum mínum upplifði ég að ég er ekki ein að leita að tilfinningalegu jafnvægi og sátt við sjálfa mig. Hver einasta kona þar hafði fundið fyrir stingandi samviskubiti yfir öllu mögulegu, fyllst vanmætti gagnvart erfiðleikum í lífi sínu og fundist hún lítils eða einskis virði.

Mér lærðist að einblína ekki alltaf á hvað var að og ég hætti að kenna mér um allt sem gerðist í kringum mig. Þegar innri rödd hvíslaði því að mér að allt væri mér að kenna, ég væri ómöguleg og mislukkuð náði ég að stoppa þann gamla vana. Ég einsetti mér að verða minn besti vinur.

Eftir rúmt ár í Lausninni er líðan mín gjörbreytt þótt ég glími enn við margvísleg vandamál. Ég lifi meira fyrir núið og nýt virkilega góðra stunda. Þetta gerist ekki að sjálfu sér, ég þarf stundum að minna mig á að vera góð við mig og beina huganum í núið þegar hann flöktir til fortíðar eða angistarfullur til framtíðar. Lærð hegðun breytist ekki á einni nóttu og því gef ég mér tíma til að öðlast hugarró og brýt mig ekki niður þegar ég fer í gamla farið heldur minni mig á að þannig ætlaði ég ekki að halda áfram.

Mér finnst fásinna að boða eilífa hamingju með því að fara í Lausnina en ég get óhikað boðað betri líðan. Lífið er margbreytilegt og áföll munu dynja yfir en með því að þykja vænt um sig og sinna sér er maður betur í stakk búinn til að takast á við alls konar vanda. Og þegar maður hættir að vasast í því sem maður hefur enga stjórn á er endalaus tími fyrir annað sem maður ræður raunverulega við og getur breytt.

Eva.