Meðvirkninámskeið Lausnarinnar

Hugtakið meðvirkni er orðið nokkuð þekkt, jafnt hér á landi sem erlendis, en birtingarmyndir þess kannski ekki eins auðþekkjanlegar. Orsakir meðvirkni geta verið margvíslegar og þróast yfirleitt í æsku en geta einnig myndast á fullorðinsárum. Lengi vel hefur verið litið svo á að meðvirkni tengist nær eingöngu aðstandendum áfengissjúklinga en staðreyndin hefur reynst önnur.

Meðvirkir einstaklingar eiga í erfiðleikum með að setja sér og öðrum heilbrigð mörk, tjá langanir sínar og sýna sér viðeigandi sjálfsvirðingu. Þeir geta verið undanlátsamir, vilja gjarnan þóknast öðrum og óttast álit annarra. Þá er meðvirkni náskyld umhyggju og getur reynst erfitt að greina þar á milli og haft streituvaldandi og neikvæð áhrif á líf okkar.

Meðvirkni birtist hins vegar einnig í stjórnsemi, hroka og yfirlæti og sá sem er meðvirkur á oft erfitt með að gera sér grein fyrir hvernig honum sjálfum líður en veit oft, eða telur sig vita, betur hvernig öðrum líður. Afleiðingarnar geta skapað mikla samskiptaörðugleika sem oft geta leitt til mikillar vanlíðunar, reiði, og jafnvel kvíða, depurð eða þunglyndi.

Ert þú ósátt/ur við sjálfa/n þig, átt í samskiptaerfiðleikum og kvíðir fyrir samskiptum eða ákveðnum aðstæðum? Þekkirðu illa tilfinningar þínar, er sjálfsmatið lágt og læturðu fólk fara mikið í taugarnar á þér? Læturðu vaða yfir þig eða veður þú yfir aðra? Áttu kannski engin áhugamál, átt erfitt með að taka ákvarðanir og sýnir stundum of sterk eða jafnvel engin viðbrögð?

Hvað er meðvirkni?

  • Hvernig verður meðvirkni til?
  • Hvernig læri ég að setja heilbrigð mörk?
  • Hvernig hefur meðvirknin áhrif á líf mitt ?
  • Hvernig get ég bætt samskipti mín við aðra?
  • Hvernig get ég lært betur að stjórna viðbrögðum mínum?

Þessar spurningar og margar aðrar verða teknar fyrir á námskeiðinu. Þar verður fjallað um ýmsar birtingarmyndir meðvirkni og áhrif, meðal annars á samskipti okkar, tilfinningasambönd, vináttusambönd og samskipti á vinnustöðum. Þá verður einnig farið yfir einfaldar leiðir til að brjótast út úr þessu, oft rótgróna, samskiptamynstri og hegðun.

Námskeiðið verður haldið laugardaginn 12. janúar, kl. 10:00 – 16:00 í húsnæði Lausnarinnar Hlíðasmára 14, 2. hæð. Í kjölfar þess verður eftirfylgni í formi hópavinnu í þrjú skipti, einu sinni í viku, einn og  hálfan  tíma í senn.

Nánari upplýsingar um fyrirlesturinn má nálgast í síma: 820-3237 eða hafdis(hjá)lausnin.is.

Leiðbeinandi: Hafdís Þorsteinsdóttir fjölskyldufræðingur
Innifalið: Kaffi, te og meðlæti (ekki hádegismatur).

Verð 20.000 kr.

Skráning „HÉR“