Meðvirk­ir for­eldr­ar ala upp meðvirk börn

Kjartan Pálmason ráðgjafi hjá Lausninni.

Kjart­an Pálma­son einn stofn­enda Lausn­ar­inn­ar, er vel að sér þegar kem­ur að því að færa for­eldr­um þau verk­færi sem nauðsyn­leg eru til að stuðla að heil­brigðu upp­eldi. 

Kjart­an hef­ur lokið þjálf­un í PIT, „Post Introducti­on Therapy“ á veg­um The Mea­dows. Nám­skeiðið er haldið af Pia Mellody og Sarah Bridge. Hann hef­ur einnig lokið fjöl­mörg­um nám­skeiðum á veg­um Piu Mellody sem nota má til að bæta sam­skipti við fjöl­skyldu, börn, maka og vinnu­fé­laga svo eitt­hvað sé nefnt. Kjart­an hef­ur starfað sem ráðgjafi í 18 ár.

Hann seg­ir að meðvirkni sé mun víðtæk­ari en fólk held­ur. „Meðvirk­ir for­eldr­ar ala af sér börn sem eiga erfitt með að setja mörk sjálf. Meðvirkni er svo út­breidd að ég tel vinnu í meðvirkni fyr­ir alla for­eldra mjög verðugt verk­efni,“ seg­ir hann og bæt­ir við. „Það er svo mik­il­vægt að nota ekki meðvirkni sem sleggju­dóm á fólk, held­ur sem leiðsögn til að finna vand­ann. Því öðru­vísi er ekki hægt að ráða bót á hon­um. Það að vera meðvituð um hvað er að og hvaðan það kem­ur ger­ir okk­ur hæf­ari til að tak­ast á við lífið og sam­skipti okk­ar við aðra.“

Fjöl­marg­ir þekkja til Piu Mellody og vinnu henn­ar. Hún hef­ur ritað fjöl­marg­ar bæk­ur og hef­ur m.a. unnið öt­ul­lega í að setja fram aðgengi­leg mód­el fyr­ir ráðgjafa sem starfa við að leiðbeina fjöl­skyld­um með áskor­an­ir tengd­ar börn­um sín­um. „Það sem reyn­ist best til ár­ang­urs fyr­ir börn­in er að fá alla fjöl­skyld­una í ráðgjöf, ekki bara barnið. Því stund­um þarf að fínstilla um­hverfið svo barnið fái bet­ur notið sín og þrosk­ist eðli­lega.“

Það sem öll börn hafa

Að finna kjarn­an í vanda­mál­inu, að fara ofan í grunn­inn er ein­kenni mód­els Mellody. „Við þurf­um að skoða hver upp­sprett­an er, hvar vanda­málið byrj­ar til að geta leyst það. Þetta snýst um fimm kjarna­ein­kenni. Við miðum við ákveðna viðmiðunarþætti sem öll börn hafa og skoðum síðan jan­vægi eða skekkj­una út frá því. Eru for­eldr­ar að standa sig gagn­vart þess­um fimm atriðum? Ef svo er þá er jafn­vægi en ekki skekkja. Skekkj­an, hins veg­ar verður oft og tíðum var­an­leg. Al­gengt dæmi er þegar barnið verður það sem það þarf að vera í stað þess að vera það sem því er ætlað að vera.“

Eft­ir­far­andi atriði lýsa hverju stigi mód­els­ins vel.

Börn eru í eðli sínu verðmæt

„Börn eru í eðli sínu verðmæt. Þau börn sem hafa al­ist upp við að vera verðmæt eru með góða sjálfs­virðingu. Heil­brigt verðmæti í upp­eldi skil­ar sér þannig að barnið upp­lif­ir að það sé verðmætt inn­an frá. Ekki fyr­ir það sem það ger­ir, seg­ir eða hvernig það hag­ar sér. Fyrstu átta ár barns­ins eru sér­stak­lega mik­il­væg, því lær­dóms­geta barns­ins er ein­stak­lega mik­il á þeim tíma.

Skekkj­an, hins veg­ar, birt­ist í því að barnið fer að upp­lifa sig betra en eða verra en aðrir. Óör­yggi, þókn­un, sam­an­b­urður og stjórn­semi eru meðal af­leiðinga af skekktu verðmæta­mati.“

Kjart­an tal­ar um að verðmæti barns byrji að þró­ast frá þriggja mánaða aldri, þegar til­finn­inga- og fé­lags­legi hluti heil­ans byrj­ar að þrosk­ast. „Verðmæta­mat barns­ins mót­ast síðan út frá því hvernig for­eldr­arn­ir koma að barn­inu. Síðar lær­ir barnið af því hvernig for­eldr­ar koma fram við hvort annað og hvernig þau sinna sjálf­um sér. Móðirin gegn­ir lyk­il­hlut­verki í upp­hafi, en í dag vit­um við að faðir­inn er ekki síður mik­il­væg­ur hlekk­ur í heil­brigðu upp­eldi barns,“ seg­ir Kjart­an og bæt­ir við. „Svo þú get­ur rétt ímyndað þér meðvirkn­ina sem mynd­ast inn­an fjöl­skyldna af gamla skól­an­um. Þar sem feður komu hvergi nærri börn­un­um og mæðurn­ar voru þjálfaðar upp í því að hugsa bara um aðra.“

Börn eru í eðli sínu viðkvæm

Kjart­an tal­ar um annað ein­kenni models Píu, hvernig börn eru í eðli sínu viðkvæm, auðsær­an­leg og varn­ar­laus. „Börn hafa eng­ar varn­ir fyrstu árin og eru al­gjör­lega háð for­eldr­um sín­um um að verja þau fyr­ir áreiti, streitu og ým­is­legu fleiru. Í meðvirkni­fræðunum erum við oft að spegla spurn­ing­una: Hver ver barnið fyr­ir for­eldr­um þess?“

Kjart­an seg­ir: ,,Ef við erum með eðli­leg heil­brigð mörk erum við meðvituð um eigið verðmæti og rétt okk­ar til að tjá okk­ur um okk­ar líðan og get­um þannig varið okk­ur fyr­ir óæski­leg­um þátt­um í um­hverf­inu.“

Kjart­an tal­ar um hvernig marka­laus­ir for­eldr­ar fara yfir mörk­in hjá börn­um sín­um. „Skamm­ir og tuð geta skekkt sýn barns­ins á hvað er í lagi og hvað ekki. Sak­laust kitl get­ur farið út í öfg­ar ef for­eldr­ar stöðva það ekki þegar barnið biður þá um að stoppa. Eins þegar börn eru orðin södd og for­eld­ar virða ekki þá staðreynd. Ef við van­v­irðum mörk barn­anna okk­ar, hlust­um ekki á skila­boð þeirra og kenn­um þeim ekki að setja mörk sjálf er barnið að verða marka­laust. Það þorir ekki eða veit ekki að það má verja sig. Að stoppa af það sem veld­ur því streitu og van­líðan. Barnið er ekki í tengsl­um við innri rödd sína.“

Börn eru í eðli sínu ófull­kom­in

Kjart­an seg­ir að sú hugs­un að börn séu í eðli sínu ófull­kom­in sé mik­il­væg að hafa í huga. „Við meg­um ekki gera of mikl­ar kröf­ur, held­ur leyfa börn­um að vera eins og þau eru. Miðað við ald­ur og þroska.

Börn þurfa að fá að finna að þau eru ein­stök og dýr­mæt eins og þau eru. Ef for­eldr­ar hafa til­hneig­ingu til að vera pirraðir yfir því að barn er barna­legt, þá get­ur það haft veru­leg áhrif á jafn­vægi barns­ins. Af­leiðing­ar eru að barnið annaðhvort reyn­ir að vera eins og for­eldr­arn­ir vilja. Börn­in verða þá full­komna barnið, eða þau stand­ast ekki kröf­urn­ar og verða erfiða, óró­lega barnið. Það sama má segja um for­eldra sem sinna barn­inu ekki. Þeir sem eru upp­tekn­ir, sjálf­ir í ójafn­vægi eða til­finn­inga­lega fjar­læg­ir. Barnið mun því reyna að sækja at­hygli og ást frá for­eldr­inu því barnið hef­ur grunnþörf fyr­ir að vera elskað. Með því að standa sig eða með því að standa sig ekki. Að gera það sem for­eldrið hef­ur áhuga á eða kalla eft­ir nei­kvæðri at­hygli. Jafn­vel það að gef­ast upp, að upp­lifa sig ekki elskað, að fara inn í sig til að byrja með sem síðan brýst út sem jaðar-hegðun. Þegar barnið reyn­ir að finna stað þar sem það til­heyr­ir.“

Börn eru í eðli sínu háð öðrum

For­eldr­ar ættu að hafa hug­fast að börn eru al­gjör­lega háð for­eldr­um sín­um með all­ar þarf­ir. „Mellody tal­ar um að grunnþarf­ir barna séu 11 tals­ins. Þær tengj­ast mataræði, svefni, hreyf­ingu, ást, jafn­vægi, ör­yggi, aðgengi að lækn­isþjón­ustu og fleira. Eitt mik­il­væg­asta atriðið að mínu mati er að for­eldr­ar kunni að róa tauga­kerfi barn­anna niður. Þetta þýðir að for­eldr­ar þurfa að vera meðvitaðir um hvað er að ger­ast í lífi barns­ins og líðan þess. Sem dæmi má nefna að barn í leik­skóla eða grunn­skóla get­ur upp­lifað mikla streitu þar sem það þarf að læra að aga sig, fara eft­ir regl­um, læra að taka niður atriði, um­gang­ast önn­ur börn, eitt­hvað sem þau ráða al­gjör­lega við svo framar­lega sem þau geta komið heim og þar sé ör­uggt skjól og for­eldr­ar sem eru meðvitaðir. Ef það er hins veg­ar spenna á heim­il­inu, til dæm­is streita for­eldra, for­eldr­ar ekki til staðar, fíkn­ir, rifr­ildi, ef barnið hef­ur upp­lifað of­beldi á heim­il­inu þá er hætt við því að tauga­kerfi barns­ins nái ekki fullri ró og hvíld og mun það breyta virkni heil­ans. Varn­ar­kerfi barns­ins aðlag­ar sig aðstæðum og barnið fjar­læg­ist tengsl­in við sig, fer að lifa fyr­ir ytra um­hverfið og lær­ir ekki að hlusta á sín­ar þarf­ir og lang­an­ir. Því miður er orðið allt of al­gengt að börn­um sé hleypt beint í tölv­una eft­ir skól­ann í staðinn fyr­ir að for­eldr­ar setj­ist niður með börn­un­um, með mjólk og klein­ur og aðstoði þau við að kom­ast á sinn núllpunkt.“

Kjart­an seg­ir að ef við töl­um ekki kerfið niður í núll sé barnið stöðugt í streitu sem mun birt­ast í ójafn­vægi, eirðarleysi, stjórn­leysi, of­stjórn­un, bæl­ingu, fíknitil­hneig­ing­um svo eitt­hvað sé nefnt.

„Þrátt fyr­ir mik­il­vægi þess að sinna þörf­um barns­ins á meðan það kann ekki sjálft að sinna þeim, þá er ekki síður mik­il­vægt að sleppa tök­un­um og leyfa og kenna barn­inu að taka við þegar rétt­um aldri er náð.“

Mæður og feður sem hafa til­hneig­ingu til að of­vernda börn­in sín og taka of mikið ábyrgð á þeim, gætu átt í hættu að gera barnið of háð sér og því getu­lítið til að tak­ast á við sitt eigið líf seinna meir. „Slík­ir for­eldr­ar hafa fengið titil­inn þroskaþjóf­ar.“

Börn eru í eðli sínu hvat­vís og opin

Kjart­an seg­ir að börn séu með gíf­ur­lega orku. Þau eru sér­stak­lega hæfi­leika­rík til að læra og meðtaka fyrstu átta árin. „Ef við sem for­eldr­ar náum ekki að mæta þessu með ró og yf­ir­veg­un þá geta börn orðið stjórn­laus eða byrja að reyna að stjórna öðrum.

For­eldr­ar þurfa að vera í and­legu jafn­vægi til að leyfa börn­un­um sín­um að prófa hluti og reyna fyr­ir sér. Ef for­eldr­ar hvessa sig ít­rekað gagn­vart barn­inu fer barnið að upp­lifa spennu og streitu. Það upp­lif­ir að það er ekki í lagi að vera eins og það er og varn­ar­kerfið fer að finna leið til hvernig er þá best að vera. Jafn­vægi for­eldra er lyk­il­atriðið í þessu atriði. Börn eru stöðugt að bregðast við líf­inu. Þau eru mikið í bak­heil­an­um, þar sem það tek­ur 27 ár fyr­ir fram­heil­ann að þrosk­ast að fullu. Ef hlut­irn­ir eru ekki eins og börn­in vilja þá hafa þau til­hneig­ingu til að fara í fýlu eða tromp­ast, þau hafa ekki fram­heila­virkni til að leysa vand­ann. Þau bara bregðast við á þann hátt sem bak­heil­inn þekk­ir að virk­ar best miðað við kring­um­stæður. Virkni barna er ekki ósvipuð því sem við þekkj­um með fólk sem hef­ur verið í fíkn, þar bregst heil­inn „spont­ant“ við með því að koma með bestu mögu­legu lausn­ina á vand­an­um, sem í til­felli fík­ils­ins, er besta skyndi­lausn­in sem bak­heil­inn þekk­ir.“

Kjart­an seg­ir að ef skekkja er á þessu sviði, þá byrj­um við að sjá fíkni­hegðun hjá börn­um eða meðvirkni.

Kjart­an seg­ir mik­il­vægt að við séum meðvituð um að eng­inn er full­kom­inn sem þýðir að ekk­ert upp­eldi er full­komið. „Meðvirkni sem hug­mynda­fræði er ekki að reyna að finna söku­dólg, held­ur til að auka meðvit­und og þekk­ingu til að geta gert bet­ur. Leiðrétta það sem var van­stillt í kerf­inu og þar fram eft­ir göt­un­um. Það er verðugt verk­efni fyr­ir alla for­eldra og sam­fé­lagið í heild sinni.“

Grein þessi birtist upphaflega í aukablaði morgunblaðsins 7.septermber 2018.
Greinahöfundur: El­ín­rós Lín­dal.   
el­in­ros@mbl.is