Lopapeysuuppskriftin að lífi mínu

prjon-1000x750

Allir voru að tala um meðvirkni og mikið ósköp var ég nú ánægð með að ég var ekki ein af þeim sem var meðvirk. Ég vissi alveg að maðurinn minn var alki og þar með taldi ég mig alls ekki meðvirka, að vísu gat ég ekki talað um það við neinn því hann var ekki búinn að átta sig á því sjálfur!!

Í mínum huga var vandamálið drykkjan hans, það var ekkert að hjá mér. Þannig var hugsun mín fyrir þremur árum.

 Guð minn góður hvað magt hefur gerst í lífinu mínu síðan og ég hef áttað mig á því að ég var svo bullandi meðvirk að ég hefði líklegast dáið úr meðvirkni hefðu örlögin ekki gripið í taumana. Eitt af aðal einkennum meðvirkninnar er einmitt að tala ekki um hlutina og halda að maður bjargi öllu með því. Halda öll sléttu og feldu á yfirborðinu.

 Það var ekki fyrr en ég varð fyrir miklu áfalli og líf mitt snérist á hvolf í einni svipann að ég áttaði mig á hvernig líf mitt var í raun og veru. Ég vissi ekki hver ég var, ég þekkti ekki tilfinningar mínar, ég var aðallega í því að gera öllum til hæfis (eins vonlaust og það nú er) og var ekki með það sterka sjálfsmynd að ég stæði með sjálfum mér, heldur lét stjórnast af öðrum.

Í tilraun til að átta mig á hvað snéri upp og niður í tilverunni fór ég á Örnámskeið hjá Lausninni og í framhaldi af því á 5 daga námskeið í Skálholti þar sem eingöngu var verið að vinna með meðvirkni.

Þar áttaði ég mig á því að lífi mínu má líkja við lopapeysuprjón. Uppskriftin af lífinu / lopapeysunni var fengin hjá foreldrunum. Þau kenndu mér með framkomu sinni hvernig munstrið átti að vera. Ég fór alveg eftir því, hitti aðra meðlimi stórfjölskyldunnar reglulega og þar var sama munstrið alls staðar, þ.e. alkahólismi og meðvirkni.

Prjónaskapurinn gekk mjög vel að mínu áliti, ég vissi ekki að önnur munstur voru til. En peysan var alltof þröng, ég passaði engan vegin í hana hún þrengdi að mér svo ég gat ekki sagt eða gert það sem mig langaði til. Ég varð bara að hreyfa mig eins og munstrið leyfði.

Í Skálholti voru kynnt önnur munstur, þau voru allt öðru vísi og heilbrigðari. Ég var ekki lengi að fitja upp á nýtt og byrja nýtt líf með nýju munstri þar sem frelsi til athafna og tjáningar eru engum hömlum háðar. Ég nýt þess að skapa mér nýja peysu / umgjörð.

Hér áður fyrr átti ég það til að skipta mér af „prjónaskap“ barnanna minna – passa að þau væru að fara eftir sama munstri og fjölskyldan. Þvílíkt frelsi að átta sig á því að hver og einn verður að skapa sitt eigið munstur svo lopapeysan þrengi ekki að og fari vel með sál og líkama. Stjórnsemin er þroskahamlandi.

Það var ótrúlega mikil lausn að kynnast Lausninni, fyrir það er ég ævinlega þakklát. Ég fékk skilning á hvers vegna líf mitt þróaðist eins og það gerði. Þegar skilningur er fyrir hendi er mun aðveldara að vinna úr fortíðinni og fara með nýtt munstur inn í framtíðina.

 Skrifað með prjóna við hönd í ágúst 2013
Guðrún