Lausnin að nýju lífi!

divorce_counselling_collingwoodÁstæða mín fyrir því að leita til Lausnarinnar voru sambandsslit þar sem ég var aðilinn sem var hafnað. Eftir á sé ég að sambandið var ekki eðlilegt. Ég var komin langt út úr sjálfri mér og ég var ávallt tilbúin að fórna sjálfri mér til að vera með honum. Öll mín rútína var á hvolfi og ég eyddi miklum tíma í þráhyggju hugsunum sem tengdust honum. Svo kom sparkið og heimurinn hrundi. Hann hafði mig í vasanum, án þess að hann kærði sig um það og það versta var að ég hafði ekki nokkra einustu hugmynd um það. Í dag sé ég það að okkar samskipti frá mínum bæjardyrum séð, höfðu einkennst af stjórnsemi, undanlátssemi, afneitun og lítilli sjálfsvirðingu.

Ég man greinilega eftir fyrstu viðtalstímunum mínum með ráðgjafa hjá Lausninni. Ég settist inn á skrifstofu til hans og vissi nákvæmlega ekkert hvað var að fara að gerast. Þar sem sambandsslitin voru nýafstaðin var ég í hálfgerðri rúst og mjög stutt í tárin og sársaukann sem fylgdi því ferli. Í viðtalinu sat ég bara og grét allan tímann, svaraði þeim spurningum sem ráðgjafinn spurði mig og hlustaði á það sem hann hafði fram að færa. Ég fann að ég var komin á réttan stað. Við ræddum um samskipti við annað fólk, æskuna mína og það besta var, viðtalið var á jafningjagrundvelli. Ég fékk speglun á sjálfa mig og loksins leið mér ekki eins og ég væri ein í heiminum. Ég þyrfti ekki að burðast með allar hugsanir og pælingar ein, ég var komin á stað sem ég gat fengið ráð og leiðsögn með það sem ég hafði hingað til verið ein að burðast með.

Eftir tvo viðtalstíma fór ég að mæta í hóp undir leiðsögn ráðgjafa einu sinni í viku. Þessir hópatíma voru líflínan mín. Eftir á að hyggja sé ég hvað ég var á slæmum stað og hvað þörfin var gífurlega mikil eftir því að öðlast betra líf. Þó svo að ég vissi ekki alveg hvað það var, en þarna kviknaði von um að það væri til eitthvað betra. Ég var gjörsamlega á botninun í öllum samskiptum, bæði við annað fólk og við mig sjálfa. Það sem hópatíminn gaf mér var það að ég gat tjáð mig, ég gat sagt það sem ég hafði setið inni með í mörg ár og það besta var að loksins var ég komin á stað þar sem ég gat treyst.

Traust hafði ekki verið til í mér. Traust var eitthvað sem var til að brjóta og ég treysti ekki neinum fyrir mínum hugsunum eða draumum. Það var svo magnað að upplifa þetta traust. Að geta deilt og sagt frá án þess að efast um trúnað og að einhver myndi slúðra um mig út í bæ. Það sem gerðist þegar ég fór að tjá mig var það að því meira sem ég sagði frá, því meira sem ég treysti hópnum fyrir því meiri von fékk ég um að ég kæmist út úr þeirri vanlíðan sem ég hafði lifað í allt mitt líf. Að finna þessa von var það sem kveikti í mér að bjarga mínu eigin lífi.

Það eru liðin tvo og hálft ár frá því að ég hóf þessa miklu göngu. Þetta stærsta verkefni sem ég hef tekist á við er svo þess virði. Því að ég er þess virði og ég á skilið að lifa lífinu í  kærleika og sátt við mig sjálfa og aðra í kringum mig. Þetta verkefni klárast aldrei, en það er svo dásamlegt að vera á þeim stað að geta tekist á við þau verkefni sem koma upp með þeim verkfærum sem ég hef lært að nýta mér í Lausninni. Ég hef nýtt mér námskeið sem hafa verið í boði og hafa þau hjálpað mér ennþá frekar í leit að betri líðan og sáttinni við mig sjálfa.

Þó það sé svoldið erfitt að viðurkenna það en þá efast ég ekki um það að ég er mín stærsta hindrun, en á sama tíma er ég lausnin í mínu eigin lífi. Ég vill geta lifað án þess að vera í stöðugum barning í samskiptum, ég vill geta sett mörk á viðeigandi hátt og ég vill getað upplifað hamingjuna sem er til staðar á hverju einasta augnabliki. Og hamingjan er til staðar, ég er hamingjan, en ég þarf að opna augun og takast á við sjálfa mig til að komast í snertingu við hana. Ég þarf að elska sjálfa mig skilyrðislaust og læra hvernig ég fer að því. Ég skil það líka svo vel að ef ég elska ekki sjálfa mig þá er ég engan vegin fær um að gefa ást og kærleik til þeirra sem eru í kringum mig.

Lausnin hefur hjálpað mér að öðlast nýtt líf.

Helga