Hver var ég og hver er ég?

batasaga

Batasaga konu.

Hver er ég ?  Þessari spurningu átti ég erfitt með að svara fyrir þremur árum.  Mitt fyrsta svar  var  „nú ég er ég, mamma og eiginkona, það er ég” og dýpra náði það ekki.

Hver var ég ?

Ég var óörugga, feimna konan sem var með lítið sjálfstraust og gat aldrei látið skoðanir mínar í ljós því ég var alltaf svo hrædd um álit annara og svo ég tali nú ekki um ef ég þyrfti að svara fyrir skoðanir mínar og að rökræða. Það forðaðist ég eins og heitan eldinn. Ég er alin upp af stjórnsamri móður sem tók fram fyrir hendurnar á mér þegar ég var að taka ákvarðanir eða að velja mér eitthvað , mamma tók ákvarðanirnar fyrir mig. Ákvarðanataka varð því  ekki mín sterka hlið, valkvíði tók við og ég var hrædd um að velja rangt og einnig hrædd um það hvað öðrum fyndist.

Tilfinningar voru ekki mikið til í minni orðabók  þar sem foreldrar mínir tjáðu ekki eða sýndu tilfinningar í mínu uppeldi, sem varð til þess að ég  lokaði bara allt á bakvið skelina mína. Ég kunni ekki, ég gat ekki og ég þorði ekki að tjá tilfinngar mínar. Ég reyndi að komast hjá því að faðma fólk og fór yfirleitt í mikla flækju í stórum boðum þar sem allir voru að kyssast og knúsast, ég tók út fyrir þetta.

Ég er alin upp á vanvirku heimili, sjálfstraustið mitt var því ekki sterkt og hvatning til náms var ekki mikil, ég var mjög afskipt og var áhugi minn á íþróttum ekki sýndur neinn áhugi. Ég flosnaði því mjög fljótt upp úr íþróttum og námi því að trú mín á sjálfri mér var ekki mikil. Foreldrar mínir kunnu ekki að hrósa nema með krókaleiðum og þá yfirleitt í gegnum aðra, oftast frétti ég frá öðrum ef ég gerði góða hluti.

Ég kunni ekki að segja nei og var því endalaust að koma mér í einhverja vinnu eða verkefni sem ég kærði mig ekkert um. Ég var hrædd um að særa einhvern eða valda óþægindum, því ekki var ég í forgangi, allir aðrir voru það.

Að festast í þráhyggjuhugsunum; ég var í áskrift þar. Ég velti mér upp úr samræðum eða atvikum, myndskreytti þær og gat farið á flug, legið andvaka og hugsað og hugsað.  Ég gat ekki verið heiðarleg við fólk og sagt,  „getur verið að ég hafi kannski bara miskilið þig“?

Hver er ég í dag ?

Ég er flott mamma og góð eiginkona sem gefur  eiginmanni og börnum  ótakmarkaða ást, hlýju og svo tjái ég tilfinningar mínar.  Ég er dugleg að hrósa fólkinu í kringum mig og spara það ekki !

Mér gengur vel í vinnunni og þar segi skoðanir mínar og lýsi óánægju  án þess að hika. Mér er alveg sama hvað fóki finnst um mig eða um skoðanir mínar, ég stend með mér alla leið.

Það er ekki hægt að segja það að ég fái valkvíiða í dag, ég tek erfiðar ákvarðanir og enn og aftur stend ég með  mér og mínum ákvörðunum.

Ég  er í góðu jafnvægi og örugg með mig, nú staldra ég við þegar ég lendi í erfiðum samskipum og tala við fólk af skynsemi og yfirvegun. Ég er við stjórn allan tímann og ég kann að segja nei. „Því miður get ég ekki  tekið  þetta að mér“,  „nei ég get ekki  sótt þig“,  „nei ég get ekki  lánað þér pening“,  „nei  ég get ekki  unnið á morgun“.

Að geta sett fólkinu í kringum sig mörk er dýrmætt. Það kann ég mjög vel, og trúið mér  það er dýrmætt því að það líður öllum svo mikið betur.

Ég á svo mikið betri samskipti við móður mína sem hefur ekkert breyst, ég elska hana eins og hún er, og ég veit að hún gerði sitt besta á sínum tíma .

Ég er búin að vera í Lausninni í tæp þrjú ár og búin að hitta yndislegar konur einu sinni í viku  og frábæran ráðgjafa.  Ég fæ speglun og ráð og er leiðrétt. Þetta er búin að vera mikil sjálfskoðun og er ég búin að kafa mikið niður fortíðar kjallarann sem bauð upp á ýmislegt misjafnt sem vinna þurfti úr.

Í dag er ég búin að uppskera !

Kæri lesandi:

Ef þú kannast við eitthvað ofangreint og þú vilt breytingar , þá mæli ég með að þú hafir samband við ráðgjafa Lausnarinnar og fáir viðtal, trúðu mér það verður til góðs.