Fjölskyldusjúkdómurinn.

Fjölskyldustefna Lausnarinnar er, að stuðla að velferð aðstandenda og þeirra sem annast fólk sem orðið hefur fíkn að bráð. Með fræðslu og leiðsögn fá þátttakendur að sjá að ekki er hægt að hafa stjórn á fíkn ástvina sinna, þeir geta þess í stað lært að taka ábyrgð á eigin lífi og hamingju. Álagið sem fylgir því að lifa við áfengis- og vímuefnafíkn getur haft líkamlegar, tilfinningalegar, félagslegar og andlegar afleiðingar.

Fjölskyldur áfengis- og vímuefnafíkla upplifa sig oft ráðalaus, örvæntingafull, reið og hjálparvana. Fjölskyldustefnan hjálpar við að aflétta ráðaleysi og örvæntingu. Hún örvar þess í stað bataferli með því að koma auga á hvaða áhrif fíknin hefur á fjölskylduna og hvaða úrræði fjölskyldan hefur sér til sjálfshjálpar. Ástvinir fíkilsins læra að átta sig á því að þeir geta ekki haft stjórn á fíkninni, þeir eru ekki valdir að henni og geta ekki læknað hana.  Með því að verða meðvitaðri um eigin skilning og reynslu sem mótað hafa hegðun þeirra ná þátttakendur að koma auga á heilbrigðari leiðir til að takast á við fíkn og samskipti.

Fíkn er sjúkleiki sem hefur áhrif á alla fjölskylduna. Foreldrar og systkini upplifa afleiðingar neyslu ástvina sinna ekki síður en þau sem í neyslu eru. Ekki skiptir þá máli  hvort um sé að ræða áfengi eða önnur vímuefni. Rannsóknir sýna fram á að batinn er áhrifameiri þegar meðlimir fjölskyldunar fá fræðslu og taka beinan þátt í bataferli fíkilsins.Í Fjölskyldustefnunni er notast við fræðslu um áfengis- og vímuefnamisnotkun og áhrifum þess á fjölskylduna og er hún hugsuð bæði fyrir aðstandendur og umönnunaraðila. Stefnan byggir á fræðslu, stuðningi og hagnýtum aðferðum til að styrkja aðstandendur í leiðangri sínum að bata fjölskyldunar.

Með stuðningi fagaðila -og aðstandenda sem eiga í sömu baráttu að stríða er möguleiki á að persónuleg reynsla fólks geti orðið byrjunin á jákvæðu og heillavænlegu ferðalagi. Fjölskyldustefnan er opin öllum aðstandendum. Hvort sem um er að ræða foreldra eða börn þeirra og hvort sem fíkillinn er sem stendur í neyslu eða er í meðferð við fíkn sinni. 

  • Öflum okkur vitneskju um skilgreiningu fíknar sem sjúkdóms og áhrif  fíknar á börn okkar og/eða aðra aðstandendur.
  • Öflum okkur vitneskju um áhrif alkóhóls og vímuefna á þroska barna okkar.
  • Þróum með okkur nýjar leiðir til að vera til staðar í bataferli ástvina okkar og okkur sjálfra. 
  • Sækjum okkur styrk til annarra sem fetað hafa sömu spor. 
  • Áttum okkur á ávinningi þess að byggja upp gott tengslanet. 
  • Leggjum drög að áframhaldandi sjálfshjálp og bata 

Við mótum þessara stefnu var haft til hliðsjónar samskonar starf  á Hazelden.