Fjölskyldan í kjölfar áfalla

 

  • Hvernig geta áföll eða erfiðir atburðir haft áhrif á fjölskylduna?
  • Hafa áföll áhrif á taugakerfi og heila?
  • Hvað er líkaminn að segja okkur?
  • Hvað er kynslóðatilfærsla?
  • Hvaða er hægt að gera til að komast nær jafnvægi?

 

Þessar spurningar og margar aðrar verða teknar fyrir á þessum fyrirlestri sem haldinn verður fimmtudaginn 17. maí. Þar verður fjallað um þau mismunandi áhrif sem áföll geta haft á okkur, viðbrögð við þeim og mögulegar afleiðingar þeirra.

Áföll geta birst í ýmsum myndum og einskorðast ekki endilega við einn tiltekinn atburð. Skilnaður, ástvinamissir eða andlegt og líkamlegt ofbeldi eru meðal þekktari áfalla en einnig geta langvinn veikindi, brotnar heimilisaðstæður eða rofin tengsl á uppvaxtarárum haft mikil áhrif á hegðun okkar og líðan.

Þegar við verðum fyrir áfalli verða í raun til eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Viðbrögðin geta verið sterk, bæði tilfinningalega og líkamlega, þar sem líkaminn er að aðlaga sig þeim aðstæðum sem hann mætir. Í flestum tilfellum minnka þessi viðbrögð með náttúrulegu bataferli líkamans en oft getur erfið reynsla haft veruleg og langvarandi áhrif á samskipti og virkni í fjölskyldum, við maka, vini eða samstarfsfélaga.

Aukinn skilningur og þekking á áhrifum áfalla getur hjálpað okkur við að vinna úr þeim og auðveldað okkur að bæta samskipti jafnt innan fjölskyldunnar sem utan. Á fyrirlestrinum verður farið yfir helstu birtingarmyndir og afleiðingar áfalla, hvernig við getum lært að þekkja einkennin og fundið leiðir til að vinna úr þeim og bætt þannig líðan okkar, tengslamyndun og samskipti.

Dags.: fimmtudagurinn 17. maí
mi:  kl.18.00-21.00
Verð:  9.900 kr.

Skráning  „HÉR“


Fyrirlesarar eru:

Hafdís Þorsteinsdóttir, fjölskyldufræðingur og með B.A. gráðu í félagsráðgjöf. Hún stundar nú meistaranám í félagsráðgjöf við HÍ.

Ragnhildur Birna Hauksdóttir, fjölskyldufræðingur. Hefur sérhæft sig í áfalla- og núvitundarfræðum.

Nánari upplýsingar um fyrirlesturinn má nálgast í síma: 820-3237 eða  hafdis@lausnin.is.