Ég var í andlegu gjaldþroti

„Lausnin“ kom einhvernvegin upp í hendurnar á mér eins og engill hefði verið sendur til mín með hana.

Ég hafði verið í andlegu gjaldþroti í nokkur ár, eða jafnvel meira og minna alla ævi, bara mis mikið.  Var mjög brotin eftir alkohólískt uppeldi og erfiðan skilnað og skipbrot á fullorðinsárum. Lifði lífinu fyrir aðra og eins og aðrir vildu að ég gerði það og var upptekin við að gleðja og næra fólkið í kringum mig en sat svo eftir með sárt ennið yfir því að enginn í kringum mig væri að passa upp á að gleðja mig og næra. Ég sagði nánast alltaf já og átti það til að verða pirruð yfir því að allir í kringum mig ætluðust til að ég gerði ALLT og ég fengi ekkert í staðin af því að ég var þessi stolta manneskja sem gat ekki beðið neinn um aðstoð af hræðslu við að fá neitun.  Ég var upptekin af því að vera dugleg, standa mig vel og gera góða hluti fyrir aðra af því að ég nærðist á hrósinu sem ég fékk í kjölfarið. Ég kunni enganvegin að setja samferðafólki mínu mörk, heldur braut ég bara sjálfa mig niður ef ég upplifði erfið samskipti. Ég var ekki nógu góð, stóð mig ekki nægilega vel eða eitthvað í mér sem var ekki rétt. Ég var haldin stjórnlausri fullkomnunaráráttu á flestum sviðum og trúði því í raun að öllum ætti að líka vel við mig og það væri mitt að dansa eftir böndum hvers og eins til að það tækist.

Hvað gerðist svo þegar ég kynntist lausninni.
Jú ég lærði að „hver er SINNAR gæfu smiður „og ég skil þessa setningu betur núna en ég gerði áður.
Líf mitt hefur tekið algjöra U beygju. Ég lærði heilmargt um mig og uppeldi mitt, komst að því að margt af því sem ég lærði þá var eitthvað sem þurfti að laga og leiðrétta.

Hérna koma nokkrir punktar yfir það sem ég hef lært um sjálfa mig í lausninni.

Ég fór að virða sjálfa mig sem einstaka manneskju sem má taka pláss, hafa tilverurétt og gera mistök sem var einstaklega stórt skref í lífinu.

Einnig var það ofsalega stórt skref að það þarf ekki öllum að líka vel við mig, þeim sem gerir það ekki, þeir fara bara eitthvað annað og það er allt í lagi.

Ég lærði að setja fólkinu í kringum mig mörk, ekki með offorsi og látum heldur bara að segja kannski nei ef ég var upptekin eða gat ekki gert einhverjum greiða (hikaði ekki áður, að hætta við eitthvað sem ég hafði verið búin að skipuleggja til að gera fyrir fólkið í kringum mig).

Fór að hlusta meira á hvað MIG langaði að gera, langar mig að fara þangað eða gera þetta.

Það er allt í lagi ef ég bið einhvern í kringum mig um aðstoð,  tek neitun ekki eins persónulega og ég gerði oft áður.

Hef öðlast meiri innri ró en ég hafði áður af því ég var mjög upptekin af því að gera ekki mistök og skipuleggja allt og alla hluti alveg í frumeindir sem ég geri ekki eins í dag.

Ég hef miklu meiri trú á sjálfri mér, er hætt að rífa mig niður fyrir allt sem ég geri og segi.

Hef meira að segja lært að gera kröfur fyrir mína hönd af því að ég á bara margt gott skilið.

Nýt lífsins miklu meira af því að ég er ekki eins upptekin af lífi annara og að þóknast öðrum.

Ég passa að næra sjálfa mig á líkama og sál og með því verð ég glaðari og ánægðari og fyrir vikið betri, manneskja, móðir, eiginkona, starfskrafur til dæmis.

Ég er og verð ævinlega þakklát fyrir að hafa kynnst Lausninni og þessum  yndislegu manneskjum í hópnum mínum sem eru mér stoð og stytta þegar ég þarf á því að halda og eru líka til staðar til að gleðjast með mér þegar vel gengur.

Ég hef lært að meta sjálfa mig að verðleikum og komist að því að ég er bara ljómandi frábær manneskja sem hef staðið mig vel að mörgu leiti og á bara allt gott skilið.

Ég væri ekki hissa lesandi góður að núna haldir þú að ég sé montin og hrokafull, sjálfumglöð eftir að hafa lesið um hvað mér finnst ég bara ljómandi frábær, en það er alls ekki svo. Það má segja að sjálfsmat og sjálfsvirðing hafi verið í -20° frosti en er núna bara að nálgast núllið.

Ég hef ennþá ljómandi gaman af því að gleðja aðra og reyni að gera samferðafólki mínu greiða ef ég get og hef tök á. Ég geri mér grein fyrir að ég er enn meðvirk og verð það alltaf en hef núna verkfæri til að nota til að auðvelda mér lífsbaráttuna. Ég veit líka að lífið verður aldrei skemmtilegra en ég geri það og mín eigin hamingja er undir sjálfri mér komin. Við uppskerum eins og við sáum og það á líka við um í okkar eigin garði.

Ég vona að þú finnir Lausnina eins og ég því það hefur gert líf mitt betra á svo margan hátt.

Kv. Lausnarkona