Ég er ekkert einsdæmi!

Neðangreindar hugleiðingar bárust okkur frá ungri konu sem hefur verið hjá Lausninni síðustu mánuði. Hún gaf okkur góðfúslegt leyfi til að deila reynslu hennar sem gæti sannarlega komið öðrum að gagni.

Sagan mín.

Ég er ekkert einsdæmi, það er ekki ástæðan fyrir orðum mínum, er ég athyglisþurfi….nei ég er það ekki, og allra síst út á söguna mína. En ég hef eitthvað að segja sem snertir okkur öll, ekki síst okkur sem umgöngumst börn og unglinga á mótunarskeiði.

Barátta mín hefur staðið í endalausan tíma, ég hef tekið 10 skref áfram og 100 aftur á bak, átt mín föll eins og alkinn þrátt fyrir að hafa ekki þann djöful að draga, risið upp og tekið mig á, verið í gleðivímu og átt mín sorgar tímabil, hætt og byrjað, verið reið og verið glöð, kennt öðrum um, tekið ábyrgð. Eftir sjálfsskoðun, greiningar á sjálfri mér gerðar af mér sjálfri, (mis gáfulegar) aðstoð fagfólks, aðstoð minna gáfulegs fólks, aðstoð fólks sem ekki er í bata, bænastarfs, innlögn á deild fyrir veika einstaklinga ( fyrir mörgum árum), endalausan grát, kvíða, hræðslu, vanmáttarkennd og tilfinningarússibana… opnaði ég mig loks í byrjun þessa árs.

Ég man enn tilfinninguna þegar ég talaði upphátt um leyndarmálið mitt, eins og 10 ára stelpa, roðnaði, grenjaði, og bölvaði og sagði síðustu setninguna nánast öskrandi…. „ ég get ekki lifað svona lengur“.. Hversvegna segi ég 10 ára? Jú vegna þess að þar byrjaði mín saga, og ég á það til að vera enn þessi 10 ára stelpa sem hafði ekki kjark í að vera hún sjálf, og lét aðra segja sér hver hún væri, hvernig hún væri, hvernig hún ætti að vera og ekki minnst trúði hún því. Ég er oft þessi 10 ára stelpa, stundum daglega, stundum á margra mánaða fresti. Mér þykir vænt um hana, ég elska hana. Og mig langar að sættast við hana …en ég þarf ekki að burðast með hana lengur á þessum forsendum.

Í mínu tilfelli var það skólahjúkrunarfræðingur, háskólamenntaður einstaklingur með reynslu af hjúkrun og umönnun sem síðar fór meira að segja á þing , sem taldi mig 10 ára krakkann á að „ná af mér“ óæskilegum kílóum, spyrjandi mig spjörunum úr varðandi holdafar í fjölskyldunni og brjóstastærð kvenna, viktandi mig vikulega og setjandi það í línurit eins og um væri að ræða spennandi keppni. Sem það síðar varð…. Biðjandi mig að huga að því hvert ég væri að stefna…. Verandi 10 ára og í mótun tók ég orðum þessarar konu sem sannleika, drakk hann í mig og hef lifað með honum meira og minna í 30 ár, að auki við önnur áföll á þessum tíma voru þetta setningarnar sem mótuðu stefnuna.

Af og á eins og alkinn sem alltaf er að bæta sig, hatandi mig og elskandi á víxl er lýsandi fyrir mitt ástand í gegnum tíðina. . Umhverfið varð skyndilega minn dómstóll og þar sem ég augljóslega þótti vel í holdum fékk ég viðnefnið feita og það hljómar enn í hausnum á mér fyrir framan spegilinn á slæmum dögum. Dómstólinn sagði mér líka að ég væri ekki fær um að taka þátt í íþróttum, nægilega sæt til að eiga kærasta eða nægilega frambærileg til að vera með í öllu….öllu því sem krakkar / unglingar / börn gera, tíminn í lífinu sem ætti að vera skemmtilegastur var það ekki í mínu lífi. Börn eru opin og viðkvæm, og því er höfnun á borð við þá að passa ekki inn, gríðarleg. Höfnunartilfinningin er minn fylgifiskur, hræðslan við að standa mig ekki, og þá sérstaklega á álagstímum í lífinu þá er ég aftur ég, 10 ára stelpa sem náði ekki í mark í víðavangshlaupinu því hún trúði ekki að hún gæti það.

Er ég með þessum orðum að segja að ég geti kennt öðrum um hvernig „fyrir mér fór“. NEI! Svo það sé á hreinu…en ég varð mótækileg fyrir áreiti og einelti og vissi ekki að ég væri NÓG… ég trúði því sem mér var sagt og ég túlkaði ummæli í minn garð, nöfn sem festust á mér eins og heilagan sannleika, hefði ég haft trú á sjálfri mér hefði það perlað af mér og ég hefði fetað aðra braut í lífinu. Ég hefði hæglega getað orðið undir í lífinu, að vissu leiti hef ég orðið það með því að dæma sjálfa mig marg oft úr leik….sagt nei við verkefnum, atvinnutilboðum, þátttöku, samveru, og gleði…. því ég „hef ekkert í það“ að eigin mati. Ég er bara 10 ára…en í líkama 40 ára konu.

Fyrir rúmlega ári vaknaði ég sem fullorðin…..loksins!! Búin að koma börnum í heiminn, reka fyrirtæki, vera í ábyrgðarstörfum, mennta mig, gifta mig og skilja, vera í sambúð , eignast heimili marg oft…og alltaf bara i vantrú á eigin getu. . En fyrir rúmlega ári vakna ég sem sagt fullorðin og veit að þetta gengur ekki lengur, ég verð að taka ábyrgð og vinda ofan af vitleysunni. Ég þarf að átta mig á að fíflin sem lögðu mig í einelti vita ekki einu sinni að ég trúði þeim, hjúkrunarfræðingurinn er löngu komin á ellilaun. Ég MÁ byrja að lifa….takk sagði ég upphátt og þá tók við annað verkefni…hvernig ætla ég að finna batann? Ég hef verið að glíma við allskyns kvilla sem hafa að auki verið að valda mér baráttu, það er óþarft að tíunda það hér en allt eru það afleiðingar af ýmsum áföllum bæði í æsku og á fullorðins árum, líkamlegum og andlegum…eins og við öll upplifum að sjálfsögðu, enda er ég ekkert einsdæmi. Ég byrjaði á að ákveða með sjálfri mér að ég þyrfti að taka mér pásu frá lífinu, ég var búin að vera í mikilli vinnu og leið oft eins og hamstur í hjóli. Það sem verra var, var það að þegar ég upplifði að ég næði ekki utan um verkefnin kom gamla vanmáttar tilfinningin upp og ég varð ósjálfrátt „feita“ sem ekkert gat og kunni. Lausnin var svelti og uppköst, meðalið var hrósið fyrir kílóafjöldann. Ég gat því þrifist á því að verða grennri og grennri því þar hafði ég allavega kontról á hlutunum. Ég sagði upp góðu starfi, fór viku í Skálholt á meðvirkninámskeið, sótti grúppu vinnu, fór í viðtöl , hitti góða CODA félaga og las mér heilmikið til. Af hverju get ég ekki bara verið „fokkings“ eðlileg ….. er setning sem kom upp í einu viðtalinu hjá ráðgjafanum mínum.. Ég hef þurft að leita og hef fundið svörin, þökk sé því er ég í fyrsta skipti í langan tíma í virkum bata. Ég er meðvirk og hef verið í mörg herrans ár, ég hef lifað fyrir að gera vel á kostnað eigin heilsu.

Hversvegna gerðu foreldrar þínir ekkert má vera að einhver hugsi…tja..það var nú svo einfalt að ég ÞAGÐI og ég varð ekki virk í átröskuninni á hættulegan hátt fyrr en í kringum 17 ára og eftir að ég flutti erlendis á flótta frá sjálfri mér og öllu,, og þá voru þau hvergi nærri, enda vilja þau mér ávallt það besta.
Átröskun er sjúkdómur sem þú vilt gjarnan eiga útaf fyrir þig, hann huggar, og þú vilt geta hallað þér að honum án þess að nokkur maður skipti sér af. Þetta var mitt leyndarmál.

Átröskun hjá fullorðnum er algengari en þig grunar, það eru konur í öllum stærðar flokkum að glíma við sjálfa sig. Hulstrið sem sem heitir líkami og er utan um sálina okkar er bara pínulítill partur af okkur… og segir ekkert til til um það hvað er fyrir innan skelina…. hulstrið gefur ekki til kynna hver þú ert, hvernig þér líður, hvort þú standir þig vel, eða um viljastyrk þinn. Hulstrið hýsir þig, mig, og okkur öll. Kona vel í holdum á ekki að fá þann dóm að hún hafi engann sjálfsaga, mjög grönn kona er ekki glæsileg frekar en kona vel í holdum eða öfugt. , það er innrætið og sálin sem segir þér söguna. Það eru ástæður á bak við alla hluti og það er ekki í lagi að dæma út frá holdafari ALDREI!, ekki í dag, ekki á morgun… aldrei.

Er ég fórnarlamb?
NEI…sannarlega ekki, ég ber ábyrgð á mér sjálf.
Er ég orðin heilbrigð? Nei ég á töluvert í land, en ég er ekki virk í átröskun og hef ekki verið í töluverðan tíma, en hausinn er enn aðeins í ólagi.
Er ég í lagi eins og ég er? Já ég er það og því ber að fagna.

Berðu ábyrgð á orðum þínum!! , þau búa yfir álögum.

Takk fyrir að lesa, þessi orð mín gætu hugsanlega hjálpað einhverjum.

K.I.